16.12.2018 | 01:47
Veraldlega valdið hefur aldrei verið hlunnfarið af kirkjunni
Þótt mér þyki prestar Þjóðkirkjunnar allt of gírugir (það hefur ekki góð áhrif á viljann til náms og starfa fyrir kirkjuna, að þeir geti makað þar krókinn með allt upp í á aðra milljón á mánuði fyrir prestsstarfið, sem ætti að vera andleg köllun og trúarleg hugsjón), þá fara ýmsir fram úr sjálfum sér og tiltækum heimildum fyrri alda, mörgum vel vottfestum, með fullyrðingum sínum.
Rangt er að fullyrða út í bláinn um að jarðirnar hafi verið illa fengnar, þegar þær gengu til kaþólsku kirkjunnar.
Prestsseturjarðirnar voru raunar sjálfseignarstofnanir og urðu aldrei kóngseign. Hins vegar rændi siðbyltingarkóngurinn klaustrajörðunum og biskupsstólajörðunum (gífurlegum auðæfum, auk silfurs og gulls) og hirti af þeim tekjur í nokkrar aldir, en seldi allnokkrar þeirra um og upp úr 1800; eftirstöðvarnar af þeim öllum gengu beint til íslenzka ríkisins á öndverðri 20. öld (og um það tala kirkjuhatararnir aldrei).
En jarðeignir kirkjustaðanna voru áfram tekjulindir presta, þar til ríkið tók að sér 1907 að borga prestum laun beint úr ríkissjóði, en í staðinn fengi ríkið að nýta flestar þær jarðir og jafnvel selja úr þeim jarðasjóði, þótt það yrði samt að vera í samræmi við settar reglur (en því hlíttu ráðherrar ekki alltaf, hygluðu jafnvel vinum sínum og ættmennum með því að selja þeim jarðir á spottprís!).
Um 1997-8 verða þessar jarðir þinglýst ríkiseign, en upp á þá sátt, að áfram fengju prestarnir laun úr ríkissjóði.
Veraldlega valdið, hvort heldur konungarnir eða okkar fullvalda ríki, hefur aldrei verið hlunnfarið af kirkjunni, hvort heldur þeirri kaþólsku (sem sá líka um drjúgan hlut af allri samfélagshjálp á miðöldum) eða þeirri lúthersku. Hins vegar hefur ríkið og konungurinn öldum saman arðrænt kirkjuna.
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.