7.4.2016 | 23:47
Boðflennan í Ráðherrabústaðnum
Þarna er hann, "leynigesturinn" sem braut grundvallarreglur sæmilegrar fréttamennsku og tókst með hjálp misnotenda á Rúv að bola Sigmundi Davíð af stóli forsætisráðherra: Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður, sem hafði alls ekki verið boðið í viðtal við Sigmund, en smyglaði sér þar inn. Litlu virtist skipta hann, að engar sakir hafa verið sannaðar á Sigmund Davíð eða konu hans og að verulega ljótt og ófyrirleitið var að bendla hann við samneyti við ýmsa verstu skúrka heimsins sem komið hafa illa fengnu fé í skattaskjól.
Án efa lægju viðurlög við slíku framferði í mörgum löndum, en hér var hann verðlaunaður af Kastljósi Ríkisútvarpsins! Gríman er fallin af grófri hlutdrægni starfsmanna Rúv, sem skeyta hvorki um mannorð manna né stjórnmálalegan stöðugleika í landinu og eru þó í vinnu hjá ríkinu á háum launum frá þjóðinni.
Eggert Skúlason ritaði í leiðara DV í 5.-7. marz (Aumingja Ísland nefnist leiðarinn) og segir m.a.:
"... gildran sem sett var upp af hálfu þáttastjórnendanna var líka fordæmalaus. Hvar hefði það gerst í heiminum að spyrill smyglaði sér inn í viðtal við þjóðarleiðtoga og færi að taka þátt í viðtali? Bara á Íslandi."
Ég vil sérstaklega benda mönnum á að lesa afar góða grein um þetta mál allt eftir Bjarna Jónsson rafmagnsverkfræðing á Moggabloggi hans, en greinin nefnist (og smellið nú): Hýenur baktjaldamakksins.
![]() |
Opna sjónrænan gagnagrunn í maí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Löggæsla, Sjónvarp, Spilling | Breytt 8.4.2016 kl. 00:02 | Facebook
Athugasemdir
Þú heldur því fram það hafi verið aðkoma Jóhannesar að viðtalinu sem varð Sigmundi að falli, frekar en þær upplýsingar sem greint var frá og studdar með gögnum, og vitnar í sömu andrá til ummæla frá aðila sem var afhjúpað í sama gagnalekanum að væri einnig tengdur a.m.k. einu þessarra aflandsfélaga. - Ef þessi færsla á að vera grín þá gleymdirðu að flokka hana sem slíka.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.4.2016 kl. 00:14
Upplýsingarnar sýndu ekkert ólöglegt, Guðmundur minn.
Skattsvik hafa engin komið í ljós þarna enn hjá íslenzkum og a.m.k. ekki hjá Sigmundi Davíð og konu hans.
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason átti skemmtilega orðað innlegg um þetta mál á Facebók:
Ekki skal lasta það að skattsvikarar séu gripnir og látnir borga. Það er bara eitthvað bogið við alla þessa jóðsótt fjallsins mikla að það kemur ekki einu sinni mús!
Jón Valur Jensson, 8.4.2016 kl. 01:44
Fólk er stjarfdáleitt og hugsun þess steinrunnin. Fjölmiðlafárið hefur sannfært fólk um að nafn vissrar eyju sé samamsem glæpur. Enginn hefur lesið lögin um meðferð sakamála.
Guðjón E. Hreinberg, 8.4.2016 kl. 03:37
Er ekki skjalafals að dagsetja skjöl aftur í tímann? Hann var heppin að íslensk lög ná ekki yfir þetta þar sem Wintris er á Tortóla..
Snorri Arnar Þórisson, 8.4.2016 kl. 11:43
Er það að skrá dagsetningu skjala aftur í tímann ekki skjalafals? Það er það á Íslandi en kannski ekki á Tortóla...
Snorri Arnar Þórisson, 8.4.2016 kl. 11:59
Hvaða þátt voruð þið eiginlega að horfa á? Í þættinum sem ég horfði var nefninlega enginn sakaður um skattsvik í viðtalinu sem var tekið í ráðherrabústaðnum. Forsætisráðherra var spurður út í tilvist ákveðins erlends félags og tengsl sín við það. Hann undi spurningunum illa, svaraði með einhverju bulli, reiddist svo og rauk á dyr. Áður en viðtalið var sýnt kom fram opinber viðurkenning frá þáverandi forsætisráðherrahjónum að þau hefðu átt umrætt félag sem ætti kröfur á föllnu bankana. Hvergi var um neina ásökun um skattsvik að ræða, en hinsvegar hneykslaði framganga ráðherrans í viðtalinu marga.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig þessir aðilar höguðu sínum skattskilum, kannski töldu þau allt fram skilmerkilega í samræmi við lög, og það er þá hið besta mál ef svo er. Langbest væri auðvitað ef Sigmundur myndi sanna það með því að leggja fram sönnunargögn, líkt og forsætisráðherra Bretlands hefur lofað að gera í sínu máli. Vangaveltur um skattskil breyta þó engu um að svo virðist sem ráðherrann hafa brotið gegn hæfisreglum 3.-4. gr. stjórnsýslulaga með því hlutast til um mál sem snúa að uppgjöri slitabúa föllnu bankanna, sem kröfuhafar í þau slitabú áttu ótvíræðra hagsmuni af, vitandi það að eiginkona hans væri þar á meðal. Þetta er eitthvað sem liggur fyrir og sem hann sjálfur hefur viðurkennt. Ég bjó ekki til þessa vanhæfisstöðu og það gerðu ekki heldur þeir fjölmiðlamenn sem tóku viðtalið, heldur gerði ráðherrann fyrrverandi það sjálfur, og hefur meira að segja viðurkennt það með síðari yfirlýsingum sínum.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.4.2016 kl. 14:52
Algjörlega sammála sammála Guðmundi Ásgeirssyni í athugasemd hans hér að ofan.
Agla, 8.4.2016 kl. 21:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.