Færsluflokkur: Bækur
13.1.2019 | 03:47
Einn Poirot í senn
Merkilegt hve oft það skuli notað í kvikmyndum og þrillerum að gera samkynhneigða að miðpunkti fléttna og atburða. Þannig var í Agöthu Christie-mynd Sjónvarpsins í kvöld, glæsilegu stykki (Cards on the Table, með Poirot), og hver þekkir ekki njósnamyndir þar sem aðalpersónan er upphaflega hönkuð á kynhneigð sinni og síðar beitt fjárkúgun eða hótun um uppljóstrun ef hún samverkar ekki með þeim, sem þar með hefur öðlazt vald yfir henni.
Gaman var í þessari mynd hvernig Agatha gamla lék sér að áhorfandanum (bzw. lesanda sögunnar) með því að beina gruninum að einni persónu þar eftir aðra, unz jafnvel lögregluforinginn, Supt. Wheeler, var ekki undanskilinn og virtist þá sá eini eftir, sem kæmi til greina!
En ritari Roberts læknis hafði með sínum óbeina hætti bent Poirot á, að ekki væri allt með felldu með meinta kvensemi þess læknis; hann hafði aldrei svo mikið sem reynt við ritarann, og þegar Roberts reyndi undir lokin að sverja af sér raunverulega kynhneigð sína, gefandi "she´s just a secretary" sem ástæðu áhugaleysis síns, svaraði hinn glöggi Poirot: "Non! Elle est magnifique!" og þarna kom í ljós, hve auðvelt það hafði verið fyrir sófasetumanninn að sjást yfir hið augljósa og fara þannig á mis við að geta í framhaldi af því endurskoðað allt samhengið með Craddock-hjónin.
Að vísu kemur það í ljós við að hugsa aftur um áhorfið, að sum atriðin, sem sýnd eru á skjánum, gerðust ekki í raun og veru í söguþræðinum, heldur eru þar eins og viðkomandi aðilar báru þeim þar vitni (eins og Roberts læknir um frú Craddock og ástleitni þeirra og eins og sumar drápssenurnar sem eru þarna búnar til (flestnir látnir reyna sig við dráp herra Shaitana!), þannig að áhorfandinn var með þessu sjónræna og trú á það, sem þar var sýnt, á meðan leiddur afvega og gat þá síður ráðið gátuna.
Skemmtilegur þriller og nóg af morðunum, sem öll voru raunveruleg í sögunni!
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2018 | 14:24
EKKI: Við erum að sjá ... !
Forsætisráðherra Íslands, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, ætti að ganga á undan öðrum með því fagra fordæmi að hætta að orða hugsun sína með þessum hætti, sem orðinn er allt of algengur: "Við erum að sjá að það verði ..." Hin sterka sögn sjá þarf ekki á neinni hækju hjálparsagnar að halda í slíku samhengi. (Þetta er nefnt hér vegna innkomu Katrínar í Bylgjufréttir í hádeginu.)
Íslenzkufræðingar hafa margoft varað við þessum klaufalega tjáningarhætti. Einn slíkur er albróðir Katrínar og því hæg heimatökin að fá rétta leiðsögn!
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2018 | 03:04
Frelsi
Persónulegt frelsi er nauðsynlegt mannlegri tign og hamingju. Bulver Lytton.
Gagnvart frjálsum mönnum eru hótanir máttlausar. Cicero.
Bækur | Breytt s.d. kl. 03:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2017 | 14:08
Eftir lestur Gunnlaugs sögu Ormstungu (m/viðaukum)
Örlög mikil og ill voru búin
örum vaskleikamanni :
sælu gjaforði´ í svikum rúinn,
er sótt var úr föðurranni.
Eitt var þó líf ykkar, ástin og trúin,
Ormstunga´ og fagur þinn svanni !
Illræði Hrafns, af öfund spunnin,
Eiríks jarls af slóðum,
eltu´ ykkur báða : brúður unnin
brögðum með þeygi góðum.
Af barst, þótt féllir, örvarunninn;
auðgaðir Helgu að ljóðum ...
Úr Gunnlaugs sögu, sennilega um síðustu fundi þeirra Helgu fögru:
"Síðan gengu þeir yfir ána, og töluðu þau Helga og Gunnlaugur um stund. Og er þeir gengu austur yfir ána, þá stóð Helga og starði á Gunnlaug lengi eftir.
Gunnlaugur leit þá aftur yfir ána og kvað vísu þessa:
- Brámáni skein brúna
- brims af ljósum himni
- Hristar hörvi glæstrar
- haukfránn á mig lauka.
- En sá geisli sýslar
- síðan gullmens Fríðar
- hvarma tungls og hringa
- Hlínar óþurft mína."
Þess má geta, að Helga þessi hin undurfagra hefur verið ein fyrsta afgerandi kvenréttindakonan á Íslandi, og hefur hún trúlega haft skap í það frá afa sínum, Agli sjálfum Skalla-Grímssyni. Skáld-Hrafn náði að kvænast henni, en þá fór hún skjótlega í kynlífsbindindi eða verkfall, eins og konurnar í Lýsiströtu Aristofaness. En þannig segir m.a. í Gunnlaugs sögu, að Hrafn "kvaðst því Gunnlaug á hólm skorað hafa, að hann kvaðst öngvar nytjar hafa [af] Helgu og kvað annan hvorn verða að hníga fyrir öðrum." Já, þetta var skapmikill ástarþríhyrningur!
Vilji menn leita uppi nýjustu passamyndina af Helgu fögru, þá er hana að finna meðal drottninganna í fornmanna-spilastokknum íslenzka (1930), sjá hér neðar!
PS. Lesið svo tímabæra grein mína: Eitt ríki með réttan málstað sannleikans gegn meirihluta hinna
HELGA FAGRA er hér hjartadrottning (eins og vera ber!), sú neðri á því spili (snýr öfugt)
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2017 | 22:44
Makkaróna tileinkuð nautaatsunnendum
(Makkarónu einkennir sú kveðskaparhefð að blanda saman tungum með slettum úr öðru máli.* Ég biðst afsökunar á því að sletta ekki spænsku:)
"Það augljóst flestum er :
þetta´ er ekkert nema vaninn,
að spýtist blóðið hér,"
kvað spænski nautabaninn.
"I know I´m much too soft ..."
hans nasarvængur þaninn,
er tókst hann hátt á loft.
Æ, triste varð þar hans baninn!
18.11. 2017
* Makkarónu-vísur eiga upptök sín á miðöldum, voru fyrst raunar latínuvísur, þar sem skotið var inn í orðum og frösum úr þjóðtungunum; en það má leika sér að þessu alla vega.
Bækur | Breytt 22.11.2017 kl. 05:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2017 | 12:57
Enn eru rímur ortar hér
Merkilegt er, að enn eru rímur ortar á Íslandi, en þetta er eitt elzta skáldskaparformið, líkl. hátt í 700 ára. Pétur Stefánsson yrkir fjörlega Rímu af Fjölva fyllibyttu á Boðnarmiði, með samúð fyrir efninu, en líka auga fyrir því spaugilega. Í mansöngvunum (upphafsþætti hverrar rímu) kemur hann svo jafnvel inn á sín leyndustu einkamál og fer vel með það sem annað; munu margir líka kannast við sjálfa sig í þeim morgunaðstæðum sem hann lýsir þarna, með sitt úfna hár, greiðandi sér "unz þokkafullur út ég lít."
Já, listilega fer Pétur með efnið, í gömlum stíl og líka ferskum með hnyttilegu orðalagi. Hafa ekki ýkja margir ort heilu rímurnar frá dögum Steins Steinarr, Kristjáns Eldjárns og Sveinbjarnar Beinteinssonar, blessaðrar minningar. Taka mætti saman lista um slíka, til viðbótar við eldri rímnasöfn Finns Sigmundssonar og Sveinbjarnar Beinteinssonar.
Margir hafa frá tímum þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar litið niður á rímnagerð, og vissulega var kominn þreyttur tónn í rímurnar margar um hans daga (en einna sízt hjá Sigurði Breiðfjörð, sem varð þó fyrir hvassri gagnrýni hans). En þetta er samt all-frjór vettvangur skáldskaparlega og uppruni rímna merkilegur, eins og próf. Vésteinn Ólason hefur bent á, þ.e. um frönsk áhrif á þessa kvæðagerð. Rímurnar, með þáttum sínum, séu þeir ekki of langir, bjóða upp á ýmsa fjölbreytni inn- og endaríms og mislangra bragarhátta, og lengi vel voru þær einn helzti framhaldsvettvangur fyrir notkun heita og kenninga í skáldamáli, þótt ýmsum tækist raunar misvel upp að gera það með þeim frjóa hætti sem finna má einkum í dróttkvæðunum gömlu, sem áttu sér sína löngu og allráðandi hefð frá níundu öld til þeirrar fimmtándu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2017 | 01:51
Kynleysið skást?
Hér er óvenjuleg frétt: Einhver vill endilega verða kynlaus og kostar (sjálfur?) miklu til í 110 aðgerðum (sjá neðar). Ætli það sé þá ekki lengur satt, sem skáldið kvað:
- Þótt náttúran sé lamin með lurk,
- samt leitar hún út um síðir ...?
Og svo að litið sé til hinnar helgu bókar, sem er heiðruð þennan dag sem jafnan: Var þá sköpunarverk Guðs ekki "harla gott", eins og þó segir á fyrstu blöðum Biblíunnar?
Um það geta menn eflaust deilt lengi og sumir rifið klæði sín (Mt.26.65), jafnvel reytt hár sitt og skegg (sbr. Esrabók 9.3), ef eitthvað verður þar eftir.
![]() |
110 lýtaaðgerðir til að verða kynlaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2016 | 00:14
Þrátt fyrir dumbungsveður er menningin ræktuð á Suðurlandi
Þetta er góður dagbókarpistill: Laugardagur 03. 12. 16, eftir Björn Bjarnason, fyrrv. menntamálaráðherra, um menningarlega samkomu í hlöðunni á Kvoslæk í Fljótshlíð í dimmviðri.
Þórður Tómasson í Skógum, fjarskyldur frændi minn, sem í mínu ungdæmi í Holti undir Eyjafjöllum var þar á nágrannabænum Vallnatúni og mér minnisstæður þar og við orgelið í Holti, var einn þeirra höfunda nýrra bóka, sem fagnað var á samkomunni á Kvoslæk. Þórður er orðinn 95 ára, en svo ern, að hann ekur enn bíl sínum og það í þessu hryssingsveðri. Hann las úr sinni 21. bók, Mjólk í mat, en er með tvær aðrar í smíðum!
Fleiri góðir Sunnlendingar kynntu þarna bækur sínar (sjá pistil Björns), og útgefandinn Bjarni Harðarson, sá þjóðþarfi bóksali á Selfossi, gegndi þar lykilhlutverki.
Kannski ég endurbirti ljóð mitt af þessum slóðum, minningarljóð (ort undir lok liðinnar aldar) fyrst og fremst um séra Sigurð Einarsson, vin og samstarfsmann Þórðar, sem sjálfum bregður þar líka fyrir, því að organistinn var hann í prestakallinu.
Nærfellt liðið ár er eitt
frá aldar þinnar fyrsta degi.
Einatt hafði sál þín seitt
sefa minn. Í austurvegi
skín við himni háleit, björt
hróðri vafin jökladrottning.
Þar hjá Katla, þar hjá ört
þitt nam krauma brjóst í lotning.
Undur lífs og eilíf rök
andann fýsti' að skilja' og læra...
Vorsins klið og vængjatök
veittist betr í ljóð að færa.
Bjargsins máttku, djúpu dul
og dagsins ljóma' á sólarhlaði,
fjallablómin fögur, gul
fangaðir þú á hvítu blaði.
Hlust við innstu hrífur nú
hlýr og dimmur andans rómur.
Rétt til getið - það ert þú,
en Þórðar frænda orgelhljómur
sætar enn mér syngur þó
og sálmar ykkar kóræfinga
í hreiðri því, sem Hanna bjó
þér, heiðursklerkur Eyfellinga.
Mannsins vinur hjartahreinn,
hásal Drottins gista máttu.
Tryggðamál þín tefji' ei neinn,
trúarbæn þá heyrast láttu
mælta fram fyrir mína þjóð:
Meðan anda nokkur lungu,
tali' hún, syngi og listaljóð
læri á þinnar móður tungu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2016 | 04:18
Lokið er nú stjórnarmyndunarviðræðum fimm ógæfuflokka
Hér er í upphafi vísað til þeirra vonarorða Guðm. Andra Thorssonar að fimmmenningarnir sem stóðu fyrir samtalinu gætu orðið e.k. uppfylling bernskrar, saklausrar hetjuímyndar úr bókum Enid Blyton.
Komu hér saman "þau fræknu fimm",
foringjar heillaríkir?
Nei, stefnan var sífellt simmsalabimm
og sjálfum sér klaufarnir líkir.
![]() |
Heiðarlegast að slíta viðræðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2016 | 06:22
Halla sem óttast óttann ...
Halla, sem "óttast óttann",
afréð að sameinast hressum og glöðum
karli; í kokkhúsið sótti´hann.
Svo knýja þau dyra á Bessastöðum.
Heimild: Kynningarþáttur um Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda í Sjónvarpi að kveldi 20. júní 2016; þar kvaðst hún ekkert óttast nema óttann sjálfan. Maður hennar er heilsukokkur.
![]() |
Halla bætir við sig mestu fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)